Sími 441 6500

Fréttir

Dagur leikskólans haldinn hátíðlegur

Dagur leikskólans í Kópahvoli

5.2.2016

Það var heilmikið um að vera hjá okkur í Kópahvoli í dag, föstudag þegar við héldum Dag leikskólans hátíðlegan. Börnin mættu snemma í skólann og höfðu vasaljós með í för. Börnin á Lóu-, Spóa- og Krummadeild fóru út með vasaljósin sín en börnin á Ugludeild voru inni. Vasaljósin komu að góðum notum því Lóurnar og Uglurnar leituðu af myndum af fuglunum sínum. Spóarnir og Krummarnir fóru hins vegar í annars konar leit. Þau fengu góða heimsókn frá bangsanum Blæ sem er táknmynd Vináttuverkefnisins sem við erum að fara að vinna með í skólanum. Blær sagði börnunum frá því að hann ætti litla vini sem væru hjálparbangsar og komu þeir með honum í leikskólann til að kenna börnunum um mikilvægi þess að vera góðir vinir. En litlu bangsarnir földu sig úti í skógi. Börnin voru vinsamlegast beðin um að hjálpa Blæ að finna bangsana sem og þau gerðu. Þau lögðu á sig skemmtilega ævintýraferð í nágrenni skólans til að finna litlu bangsana og fundu þá með hjálp vasaljósa sinna. Allir gæddu sér svo á heitu kakói og kleinum eftir leitina auk þess sem íslenska fánanum var flaggað og sungið í kringum hann nokkur vel valin lög.

Dagur leikskólans er þann 6. febrúar ár hvert en þar sem hann lendir í ár á laugardegi var hann haldinn hátíðlegur þann 5. febrúar. Tilgangurinn með deginum er að vekja athygli á því kraftmikla starfi sem fram fer í leikskólum landsins.