Leikskólinn Kópahvoll er við Bjarnhólastíg 26 og stendur á hæð rétt við Víghólinn, sem er friðað svæði. Leikskólinn Kópahvoll var opnaður 11.maí 1970 og var hann fyrsti leikskólinn sem byggður er sem slíkur hér í Kópavogi. Byggð var ný álma við leikskólann 1993 síðan var safnaðarheimili Digranessóknar breytt í leikskóladeild 1995. Í dag dvelja 74 börn í Kópavholi og eru fjórar deildir við skólann:

 • Krummadeild þar sem elstu börnin dvelja, þau sem eru fimm ára
 • Ugludeild dvelja þriggja til fjögrra ára börn
 • Spóadeild dvelja börn sem eru tveggja til þriggja ára
 • Lóudeild dvelja börn sem eru eins til tveggja ára

Aldur barna á deildum getur breyst þar sem árgangar eru mismunandi.

https://vimeo.com/343263568

Einkunnarorð skólans eru: Leikur - List - Lífsleikni

Leikur

Maðurinn er óhjákvæmilega þátttakandi í því samfélagi sem hann býr í. Í Kópahvoli er lögð áhersla á menningu, tengsl við sögu okkar og fortíð. Við kynnum börnunum ýmislegt í menningu samfélagsins með áherslu á þjóðlegan fróðleik. Börnunum eru kenndar gamlar þulur, kvæði, lesin eru gömul ævintýri og farið er í ýmsa gamla leiki. Hátíðir, hefðir og siðir eru ákveðin menning og tengsl við sögu okkar og fortíð. Í leikskólanum er lögð rækt við ýmsan fróðleik. Virðing er borin fyrir öðrum menningarsamfélögum. Tungumáli og litarhætti fólks.

List

Á Kópahvoli er áhugi barnanna á listum vakinn með því að fara skipulega með þau á listasöfn, þjóðminjasöfn og náttúrufræðisöfn og þeim kennt að umgangast listaverk og gamla muni af virðingu, þannig læra börnin að bera virðingu fyrir listaverkum og einnig hvernig á að umgangast þau. Farið er með elstu börnin um veturinn í heimsóknir á söfn og síðan vinna þau verkefni á leikskólanum um það sem þau upplifðu og túlka upplifun sína með teikningum, málun eða á annan hátt.

Lífsleikni

Leikskólastarfið fléttast saman af fjölbreyttum námssviðum, námsþáttum og daglegu lífi og leik barnsins. Í leikskólanum er barnið í brennidepli og starfshættir taka mið af þroska og þörfum hvers einstaklings. Til þess að svo megi verða er leikskólastarfinu skipt í ýmiskonar leik, náms og samverustundir bæði inni og úti. Lífsleikni er hæfni einstaklings til að takast á við lífið sjálft í samskiptum við aðra. Hæfni til samskipta er grundvöllur þess að lifa, starfa og leika sér með öðrum í sátt og samlyndi. Barnið þarf að læra að vera virkur og ábyrgur þátttakandi í lýðræðisþjóðfélagi. Segja má að leikskólanámið sé í raun samfellt lífsleikninám. Í leikskólanum er barninu kennd lýðræðisleg vinnubrögð. Börnin þurfa að fá tækifæri til að leysa deilur á jákvæðan og friðsamlegan hátt og læra að gleðjast með öðrum og lifa í sátt við sjálft sig og umhverfi sitt.

Til að öðlast lífsleikni þarf barnið að læra:

 • undirstöðuatriði heilbrigðs lífs og lifsviðhorfa í samneyti við jafningja í leik og starfi
 • að bera virðingu fyrir öðrum
 • að sýna umburðalyndi gagnvart ólíkum skoðunum, ólíkri menningu og reynslu
 • að þekkja sinn innri mann og styrkja sjálfstraust sitt
 • að auka færni sína til samskipta og umgengni við félagana
 • að beita rökhugsun, spyrja spurninga og leiða svara
 • að virða lífsgildi, venjur og hefðir sem ríkja í leikskólanum og í samfélaginu
 • að í samskiptum manna er nauðsynlegt að hafa reglur sem ber að virða
 • að vera virðingu fyrir náttúrunni – umhverfinu, dýrum og jurtum.

Lífsleikni felst m.a. í því að virða reglur. Leikskólakennara ber að setja reglur sem gilda eiga í barnahópnum og skýra tilgang þeirra fyrir börnunum. Reglurnar eiga að vera fáar einfaldar og skýrar. Eðlilegt er að eldri börn taki þátt í að setja sumar reglur í barnahópnum og ræði þær, er það vísir að lýðræðislegum vinnubrögðum sem börnin þurfa smám saman að þjálfast í. Styðja þarf börn í að virða settar reglur og gefa þeim kost á að leysa úr eigin málum og deilum á friðsamlegan hátt. Samskiptin í leikskólanum þurfa að vera með þeim hætti að allir virði rétt annarra. Viðmót og viðhorf til barnanna skipta miklu máli og er mikilvægt að hverju barni sé mætt á eigin forsendum. Daglegar venjur gefa uppeldisstarfinu reglubundið form sem skapar öryggi og festu í lífi barnanna í leikskólanum.