Barnasáttmáli Sameinuðuþjóðanna og UNICEF

Leikskólinn Kópahvoll er þátttakandi í verkefninu Réttindaskóli UNICEF, samstarfsverkefni við UNICEF á Íslandi. Sem Réttindaskói UNICEF er unnið eftir gildum og stefnu Barnasáttmálans og þannig er lögð áhersla á að skapa börnum umhverfi til þátttöku og þar með að auka jafnrétti og virðingu. Markmið með verkefninu er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpar börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Með þetta að markmiði eru grunnforsendur Barnasáttmálans útgangspunktur allra ákvarðana skólans, auk þess sem þær endurspeglast í samskiptum barna, kennara og annara starfsmanna. Börn tileinka sér siðferðisleg gildi og staðla fyrst og fremst gegnum áþreifanlegar upplifanir. Framkoma fullorðinna hefur áhrif á skilning barna og virðingu fyrir réttindum og þeim reglum sem gilda í lýðræðislegu samfélagi. Hinir fullorðnu eru mikilvægar fyrirmyndir og leikskólakennarar eru ábyrgir fyrir að virða og uppfylla þarfir hvers barns. Börnum skal gefið tækifæri til að þroska færni sína til að uppgötva, velta fyrir sér og taka afstöðu. 

12.gr. Öll börn eiga rétt á að taka þátt og hafa áhrif í málum er varða þau með einum eða öðrum hætti

Á Alþjóðadegi barna og þrjátíu ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 2019 tóku börnin þátt í sýningu sem haldin  var í Smáralind. Unnið var með 29. grein Barnasáttmálans, Markmið menntunar en þar segir;

Menntun á að gefa börnum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og undirbúa þau til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi í anda skilning, friðar, umburðarlyndis, jafnrétti kynjanna og vináttu allra þjóða og þjóðernishópa. Stuðla ber að virðingu fyrir mannréttindum, mismunandi arfleið, tungu og gildismati, öðru fólki og náttúrulegu umhverfi mannsins.