Vinátta

 

Vinátta er forvarnarverkefni gegn einelti ætlað leikskólum

Einelti er félagslegt, menningarlegt  og samskiptalegt mein en ekki einstaklingsbundinn vandi. Einelti er slæmt mynstur eða samskipti sem þróast í aðstæðum og umhverfi  þar sem umburðarlyndi skortir gagnvart margbreytileikanum og viðmið um hvað sé „rétt“ eða „rangt“ eru ósveigjanleg.  

Einelti eða samskiptamynstur sem getur leitt til eineltis eða útilokunar má rekja allt niður í leikskóla. Því er mikilvægt að strax í leikskóla sé byggt upp umhverfi og andrúmsloft þar sem einelti fær ekki að þróast.
 Það sem einkennir barnahópa þar sem einelti nær ekki að þrífast er hár þröskuldur umburðarlyndis. Þar er samkennd, börnin njóta virðingar og viðurkenningar. Þau finna sér sinn eðlilega sess í hópnum, sama hver þau eru, hvernig þau líta út, hvaða hlutverki þau gegna og hvers þau eru megnug. Gildi margbreytileikans er virt og umburðarlyndi fyrir því að hópurinn er samsettur úr mismunandi einstaklingum með mismunandi einkenni og mismunandi styrkleika. Ekki er gert ráð fyrir að einstaklingar breyti einkennum sínum eða útliti til að falla í hópinn. 

Hugmyndafræðin endurspeglast í eftirtöldum fjórum gildum.

Umburðarlyndi

Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.

Virðing

Að viðurkenna og taka tillit til að allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða margbreytileikann innan hópsins.

Umhyggja

Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.

Hugrekki

Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.

barnaheill.is